Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Góð heilsa er gulli betri - 7 ráð fyrir þig

Heart-Health

Helstu kostirnir við að gera líkamsrækt að lífsstíl og stunda daglega eru aukið heilbrigði, vellíðan andlega og líkamlega. Þegar að við breytum slíkum lifnaðarháttum þá fylgir meiri orka, líkamleg vellíðan, bætt sjálfsmynd og aukið sjálfstraust. Dánarorsök fólks er oft rakin til ofneyslu fitu og offitu. Má þar nefna hjarta- og æðasjúkdóma og krabbamein. Fituríkt mataræði má einnig tengja sykursýki, háu kólesteróli, meltingartruflunum, brjóstsviða og streitu.

Hér eru 7 góð ráð fyrir þig kæri lesandi um ávinning þess að gera heilsurækt að lífstíl.  

1. Aukin líkamsrækt kemur í veg fyrir sjúkdóma

Allt of stór hluti fólks hefur einhvers konar hjartasjúkdóma. Fitulítið mataræði getur komið í veg fyrir eða haldið niðri hjartasjúkdómum. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að uppskurðir og meðferð þeim samfara er oft ekki varanleg lækning. Sjúklingar sem hafa farið í hjartaþræðingu, æðablástur og jafnvel fengið gerviæðar geta ekki litið á það sem einhverja varanlega lausn vegna þess að í mörgum tilfellum stíflast æðarnar aftur innan fáeinna mánaða eða ára. Breytingar á lífsstíl eru nauðsynlegar til að fá varanlegan bata. Fitulítið, trefjaríkt mataræði er einnig mikilvæg forvörn.

 

2.  Bætir skapið

Vantar þig að fá útrás? Eða þarftu að losa um streituna eftir erfiðan dag? Iðkun líkamsræktar eða ganga 30 mínútur rösklega getur hjálpað. Líkamsrækt örvar ýmis efni heilans gera þig tilfinningalega hamingjusamari og hefur áhrif á eigin vellíðan. Þú verður meðvitaðri um eigið útlit og sjálfvitund þín eykst við reglulega líkamsrækt.  Sjálfstraust og vellíðan á líkama og sál eykst.

 

3. Borðaðu á þriggja tíma fresti

Borðaðu á þriggja tíma fresti til að halda brennslunni gangandi.Þegar þú ætlar að taka þig verulega á þá er nauðsynlegt að skera niður sætindi, gosdrykki, kex, og kökur. Allt er þó leyfilegt 1x í viku (t.d  á laugardögum) nammidagana. Verið dugleg að drekka nóg af vatni yfir allan daginn og einnig á meðan að æfingu stendur.  Vatn er allra meina bót.

 

4. Haltu matardagbók

Mjög gott er að halda utan um mataræðið sitt með því að skrifa matardagbók. Með þv að halda matardagbók þá fær maður betra yfirsýn yfir það sem maður lætur ofan í sig og hefur betri yfirsýn yfir fæðuval.  Ég mæli með að borða fimm til sex máltíðir á hverjum degi. Það er morgunmatur, millimál, hádegismatur, millimál, kvöldmatur og kvöldsnarl.

 

5. Betri svefn

Áttu í erfiðleikum með svefn? Regluleg hreyfing getur hjálpað þér við að sofna og dýpkar svefn þinn. Stundaðu líkams- og heilsurækt daglega og þú munt finna mun á svefninum. Auk þess hefur líkamsrækt margvísleg önnur heilsubætandi áhrif. Þeir sem eiga við svefnerfiðleika að stríða ættu að stunda hreyfingu með meðaláreynslu í 4 til 6 klukkutíma á viku.

 

6. Líkamsrækt eykur neistann í kynlíf þitt

Finnst þér þú vera of þreytt/ur eða langar ekki að njóta líkamlegrar nándar við maka þinn? Regluleg líkamsrækt getur haft jákvæð áhrif á kynlíf þitt. Regluleg hreyfing getur valdið aukinni örvun fyrir konur og karlmenn. Kynlíf er hollt fyrir líkama, nándina og sálina.

 

7. Líkamsrækt er lífstíll

Íþróttir og líkamsrækt  er besta og skemmtilegasta leiðin til að varðveita eigin heilsu . Við eigum aðeins einn líkama og heilsan okkar er það dýrmætasta sem við eigum. Líkamsrækt gefur þér tækifæri til að slaka á, og njóta lífsins sem gerir þig hamingjusamari. Aukin líkamsrækt getur einnig hjálpað þér að tengjast betur fjölskyldu eða vinum í skemmtilegu, félagslegu og hvetjandi umhverfi. Ég vil hvetja þig kæri lesandi að byrja strax að stunda líkams- og heilsurækt. Finna heilsuræktina sem þú nýtur að stunda.

Góð heilsa er gulli betri. 

 

Unnur Pálmarsdóttir
 
 
 
Mannauðsráðgjafi og eigandi Fusion

10 heilsupunktar í lífi & starfi

  10 heilsupunktar í lífi & starfi

Unnur Pálmarsdóttir

Það er staðreynd að sjálfstraustið okkar eykst þegar við hugsum vel um okkur sjálf. Setjum okkur í fyrsta sætið. Hér eru 10 góð ráð fyrir þig.
 

1.  Dekrum við líkamann. Leyfum okkur að dekra við líkamann t.d. fara í nudd, sund eða það sem hentar þér til að ná betri vellíðan. Vellíðan öðlumst við einnig með vaxandi sjálfstrausti sem eykst þegar við ræktum líkama og sál.

2.  Verum sátt við okkur sjálf. Verum sátt við sjálfa okkur. Þegar við erum sátt við lífið og tilveruna þá virðast allar dyr opnar og möguleikar lífsins verða endalausir! Göngum um dyr lífsins og njótum þess að vera til og lifa heilbrigðu lífi.

3.  Hreyfing og matarræði skiptir máli. Andlegt og líkamlegt jafnvægi skapast með hreyfingu og að borða rétt fæði.

4.  Verum skipulögð. Skipuleggjum okkur betur þá skapast meiri tími og svigrúm til að stunda hreyfingu og tómstundir sem við viljum iðka.

5.  Prófum nýja hluti. Verið óhrædd að prófa nýja hreyfingu, líkamsrækt eða íþróttir á nýju heilsuári. Farðu út að skokka, synda, ganga, dansa eða kynnast nýrri heilsurækt.

6.  Hugum að forvörnum fyrir líkamann. Lyftingar og að stunda heilsurækt  er besta forvörnin við beinþynningu. Við lyftingar þá styrkjum við vöðvafestur og byggjum upp vöðvaþol og styrk. Markmið er að byggja upp líkamann til að forðast meiðslahættur. Því eru lyftingar og hreyfing í hvaða formi sem er öllum nauðsynleg.

7.  Sjáum okkur eins og við erum. Sjáum okkur eins og við erum. Verum gagnrýnendur á okkar störf og því gerendur í leiðinni og að lokum framkvæmendur. Þegar okkur líður betur með líkama og sál þá verða allir hlutir auðveldari og lífið leikur við okkur.

8.  Setjum okkur markmið. Setjum okkur markmið með því skipuleggja okkur og ná árangri. Sjálfsmynd þín verður sterkari þegar sjálfstraust þitt vex og dafnar við það eitt að leggja rækt við sjálfan þig og byrja að hugsa um heilsuna strax í dag.

9.  Njótið! Við eigum aðeins einn líkama og það er okkar ábyrgð að fara vel með hann alla lífsgönguna. Hafið heilsuna ávallt í fyrirrúmi og njótið þess að vera til!

10.  Hlustum á líkamann. Heilsan skiptir okkur öll máli því er nauðsynlegt að hlúa vel að henni og hlusta á líkamann.

 

Gangi þér vel. 

Unnur Pálmarsdóttir

Mannauðsráðgjafi 


Morgunstund gefur gull í mund

 

Morgunstund gefur gull í mund. 

Með hækkandi sól þá er komið að því að vakna fyrr og stunda líkamsrækt á degi hverjum. Umfram allt að njóta lífsins í botn og vera jákvæður í lífi og starfi.

Ert þú A eða B manneskja?

Ertu ein/n af þeim sem ýtir alltaf nokkrum sinnum á “Snooze” takkann þinn til að lúra aðeins lengur? Langar þig að verða A manneskja og stunda líkamsræktina góðu að morgni til? Ef svarið er játandi þá skaltu lesa þennan pistil.

Hér eru sex góð ráð til að hefja daginn fyrr.

1. Sofa í íþróttafötunum?

Hafðu æfingafötin ávallt tilbúin við rúmstokkinn svo það verður auðveldara fyrir þig að skella þér í þau og beint á brettið eða Spinning í ræktinni! Stundum fara yfir 10 mínútur í það eitt að finna og klæða sig í íþróttarfötin. Þá kemur oft sú hugsun upp sem allir ættu að kannast við: ,,Ahh gott væri nú að sofa aðeins lengur og sleppa æfingunni” en auðvitað þá sprettum við upp, teygjum okkur, burstum tennurnar, fáum okkur einn góðan ávöxt . Þannig erum við tilbúin í góða æfingu og dagurinn verður betri og orkumeiri.

2. Stilltu fyrirfram kaffivélina

Settu kaffivélina þína á “Auto” kvöldið áður. Rannsóknir sýna það að lyktin af kaffibaununum vekur þig. Ljúffengur kaffiilmurinn dregur þig úr rúminu og vekur þig ljúlega. Eru ekki allir sammála því?

3. Stilltu vekjaraklukkuna þína með tónlist sem kemur þér í gang!

Eru Madonna, Rihanna eða Queen á lagalistanum þínum í ræktinni? Ef það eru lög sem vekja þig gerðu þá uppáhaldslagið þitt að ,,vekjaraklukku” laginu þínu. Stilltu vekjaraklukkuna þína með taktfastri og góðri tónlist sem þú vaknar vel við. Hröð og góð tónlist kemur okkur af stað í daginn.

4. Þrisvar í viku

Gerðu það að venju þinni að vakna þrisvar sinnum í viku og stunda líkamsræktina. Með því að gera rútínuna að föstum lið þá verður auðveldara að vakna. Því oftar sem þú stundar líkamsræktina á morgnana því fyrr verður líkamann að aðlagast. Gerðu mánudagsæfingu í upphafi vikunnar að föstum lið og haltu því áfram. Það er yndislegt að vakna á mánudagsmorgni, stunda góða heilsurækt og eiga alla vikuna eftir.

5. Settu þér markmið að stunda líkamsrækt í skemmri tíma

Ef þú ert of þreytt/þreyttur í upphafi líkamsþjálfunar og hryllir við þeirri klukkustundar líkamsþjálfun sem framundan er þá skaltu sannfæra þig um að stunda “aðeins” 30 mínútna þjálfun. Það eitt að skuldbinda sig og vakna fyrr þá eru líkurnar mun meiri að þú standir við markmiðið sem þú settir þér.

6. Íslenska vatnið er best í heimi

Hafðu glas af vatni á náttborðinu þínu og drekka það um leið og þú vaknar. Gerðu það að venju hjá þér. Vatn gefur þér orku, hressir og kætir. Drekktu að minnsta kosti átta glös af vatni á dag.

Allt þetta að ofantöldu hljómar mjög vel og virkar auðvelt. En svo er ekki. Það munu koma upp mörg augnablik þar sem þér mun finnast þetta vera svolítið erfitt. Þú munt freistast til að sleppa æfingu, sofa út og ýta á “Snooze” takkann mörgun sinnum og snúa þér ljúlega á hina hliðna. Þú munt freistast til að fá þér nammi þegar þú ættir að fá þér hollan ávöxt eða grænmeti

Umfram allt er að gefa sér tíma til að þykja vænt um sjálfan sig og huga vel að líkama og sál. Gera reglubundna hreyfingu að lífstíl hvort sem það er á morgnana að degi til eða á kvöldin.

Njótum lífsins og munum að góð morgunstund gefur gull í mund.

Gangi þér vel.

Unnur Pálmarsdóttir

Mannauðs- og markaðsstjóri Reebok Fitness og eigandi Fusion.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband